Fréttir / News

Sigurður Örn um leitarheimildir og haldlagningu gagna lögmanna

  |   Fréttir af stofunni

Á Vísi.is í dag er fjallað um lokun þinghalds þar sem taka átti fyrir kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að skoða rafræn gögn í snjallsíma lögmanns. Sigurður Örn Hilmarsson formaður Lögmannafélags Íslands og eigandi á Rétti, var viðstaddur þinghaldið fyrir hönd Lögmannafélagsins til að fylgjast með málinu, enda hagsmunir undir sem kunna að varða lögmannsstéttina alla.

Sigurður sagði í samtali við Vísi að hann óttist að framgangurinn sé ómarkviss þar sem trúnaðarupplýsingar og viðkvæm gögn um alla aðra skjólstæðinga lögmannsins og gagnaðila séu undir. Við leitarheimildir, haldlagningu og húsleitir sem þessar þarf annars vegar að gæta þess að raska ekki trúnaðar- og þagnarskyldu lögmanna gagnvart skjólstæðingum sem eru til rannsóknar hverju sinni, og hins vegar gæta að trúnaðar- og þagnarskyldu lögmanna gagnvart öðrum skjólstæðingum sem engin tengsl hafa við þá rannsókn sem málið varðar. Í ljósi þessara verndarhagsmuna óskaði Sigurður Örn eftir úrskurði héraðsdómara um að þinghaldið skyldi lokað. Úrskurður héraðsdóms var svo kærður til Landsréttar en Landsréttur staðfesti úrskurðinn um lokað þinghald.

Mikilvægt er að hafa í huga að samkvæmt íslenskum rétti geta haldlögð gögn nýst til saksóknar í öðrum málum en þeim sem eru upprunalega tilefni haldlagningarinnar. Þetta er frábrugðið því sem víða gildir erlendis, þar sem dómstólum er óheimilt að leggja til grundvallar gögn sem aflað er með ólögmætum hætti eða með húsleit í öðru máli. Í þessu samhengi þarf einnig að hafa í huga að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skorið úr um nauðsyn þess að viðeigandi úrræði og öryggisráðstafanir séu til staðar sem tryggja að ekki sé brotið á trúnaði lögmanns gagnvart skjólstæðingum sínum við framkvæmd húsleitar og haldlagningar á gögnum í hans vörslum.

Sem formaður Lögmannafélags Íslands hefur Sigurður Örn farið þess á leit við dómsmálaráðherra að löggjafinn beiti sér fyrir skýrari regluverki hér á landi um þessa viðkvæmu hagsmuni, síðast í desember 2023. Tillögur Lögmannafélagsins fela m.a. í sér að brýnnar nauðsynjar sé krafist vegna rannsóknaraðgerðanna, að þær skuli eingöngu fara fram í skýrum og málefnalegum tilgangi til rannsóknar á afmörkuðum brotum. Þá skuli vera skýrt að hvaða gögnum er leitað og sérstakt tillit sé tekið til hagsmuna þeirra skjólstæðinga lögmanns sem ekki tengjast rannsóknarefninu sem og þagnarréttar sakborninga þegar við á. Jafnframt ætti sérstakur húsleitarfulltrúi að vera tilnefndur af Lögmannafélaginu sem verði viðstaddur rannsóknaraðgerðirnar til að gæta hagsmuna lögmannsins og skjólstæðinga hans við framkvæmd rannsóknaraðgerðar.