Fréttir / News

Umfjöllun í hádegisfréttum RÚV vegna kvörtunar palestínskrar fjölskyldu til umboðsmanns Alþingis

  |   Fréttir af stofunni

Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður á Rétti, var í viðtali hjá RÚV vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd palestínskrar fjölskyldu. Fjölskyldufaðirinn er með dvalarleyfi hér á landi og fékk fjölskylda hans samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir nokkru síðan, en börnin hans þrjú og eiginkona eru enn föst á Gaza.

Fram kom að kvörtunin snýst um málshraða og að það hvíli athafnaskylda á íslenskum stjórnvöldum í þessum aðstæðum: „bæði á grundvelli mannúðarréttar og mannréttindaskuldbindinga. Hagsmunirnir eru þarna auðvitað rétturinn til lífs, bann við ómannúðlegri meðferð og réttur þeirra til fjölskyldulífs.” sagði Jóna.

Í samtali við fréttastofu RÚV vísaði Jóna til þess að úrskurður Alþjóðadómsólsins í Haag staðfesti þann 26. janúar sl., að líkur séu á þjóðarmorði á svæðinu og að ljóst er að samningsríki Gefnarsamningsins gegn þjóðarmorði, hafi skuldbundið sig til að koma í veg fyrir þjóðarmorð og hlutdeild í þjóðarmorði.

Þá varði málið þrjú börn en samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland hefur fullgilt og lögfest, hafa aðildarríki að samningnum sérstakar skyldur til þss að vernda börn. Þar á meðal skulu ríki, með jákvæðu hugarfari, mannúðlega og með skjótum hætti, afgreiða beiðni barns eða foreldris um að koma til aðildarríkis vegna endurfundna fjölskyldu. Jafnframt skulu ríki gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja börnum sem áhrif vopnaátaka ná til, vernd og umönnun í samræmi við skyldur sínar skv. alþjóðlegum mannúðarreglum til að vernda óbreytta borgara í vopnuðum átökum.

Málið er til afgreiðslu hjá umboðsmanni Alþingis.

Umfjöllun RÚV má nálgast hér og hlusta á frétt úr hádegisfréttum hér. Jafnframt má finna umfjöllun Heimildarinnar um málið hér.