Fréttir / News

Ljósmynd: M. Flóvent fyrir Lögmannablaðið

Sigurður Örn kjörinn formaður Lögmannafélagsins

  |   Fréttir af stofunni

Á síðasta félagsfundi Lögmannafélags Íslands, 28. maí 2021 var Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður og einn af eigendum Réttar, einróma kjörinn formaður félagsins.

Sigurður hefur setið í stjórn Lögmannafélagsins frá árinu 2019, fyrst sem ritari og svo sem varaformaður undanfarið ár. Aðrir stjórnarmenn félagsins eru Eva Bryndís Helgadóttir, Geir Gestsson, Birna Hlín Káradóttir og Kristín Edwald, lögmenn.

Sigurður hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum frá ungum aldri, þar á meðal í stjórn Félagsstofnunar stúdenta 2009-2014, sem formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2006-2007 og sem Inspector scholae í Menntaskólanum í Reykjavík 2002-2003.

Vísir.is hefur fjallað um kjörið og Morgunblaðið fékk Sigurð í viðtal þar sem hann fjallaði um reynslu sína af lögmennsku og hið nýja hlutverk. Í því viðtali lagði Sigurður áherslu á hlutverk lögmanna við að gæta grundvallarréttinda fólks og hrinda órétti.

Í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins er jafnframt forsíðuviðtal við Sigurð. Um lögmenn segir Sigurður:

„Lögmenn eru þjónar réttarríkisins, þeirra hlutverk er að gæta að grundvallarréttindum fólks. Það skiptir raunverulegu máli að það sé gott fólk sem veljist til þessara starfa.“

Um starfið framundan sem formaður og segir hann:

„Þessa fyrstu mánuði langar mig líka að útskýra hlutverk lögmanna betur gagnvart samfélaginu og standa vörð um það.“

Atriði því tengt sem Sigurður vill kanna og varpa ljósi á eru leiðir til að bæta starfsumhverfi lögmanna, t.d. með lengd áfrýjunar- og kærufresta og staða lögmanna innan sakamála, t.d. of algengar og yfirgripsmiklar húsleitir á lögmannsstofum, það þegar lögmenn fá ekki að sinna hlutverki verjenda þar sem þeir geti hugsanlega verið kallaðir fyrir sem vitni, víðtækar símhlustanir og það að lögmönnum sé ekki samsamað við skjólstæðinga sína, t.d. ef þeir óska eftir að kæra gæsluvarðhaldsúrskurði. Þá vill hann kanna og fá betri mynd af pro bono vinnu lögmanna og hvetja til hennar.

Um fjölbreytt verkefni á Rétti sagði Sigurður:

„Við erum óvenjuleg lögmannsstofa að því leytinu að við sinnum einnig mikið fyrirtækjalögfræði og á biðstofunni hjá okkur sitja kannski forstjórar og hælisleitendur hlið við hlið og bíða eftir að ræða við lögmann. Það er sá hluti sem aflar okkur tekna til að borga laun og reka stofuna.“

Þetta segir hann gera Rétt að eftirsóttum vinnustað, með góðri starfsánægju og auknu víðsýni starfsfólks, sem nýtist í ýmsum málum.

Þess má geta að Sigurður er annar lögmanna Réttar til að verða formaður Lögmannafélagsins en Ragnar Aðalsteinsson var formaður félagsins á árunum 1992-1995.