Fréttir / News

Védís Eva nýr eigandi á Rétti

  |   Fréttir af stofunni

Védís Eva Guðmundsdóttir hefur bæst í hóp eigenda hjá hjá lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners, en hún hefur yfirgripsmikla reynslu af mannréttindamálum og Evrópurétti og hefur starfað á stofunni frá árinu 2020.

Áður starfaði Védís Eva hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel, við EFTA dómstólinn í Lúxemborg og hjá Mörkinni lögmannsstofu. Þá sinnti hún málflutningi í fyrsta málinu sem rekið var gegn íslenska ríkinu hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg árið 2019. Védís Eva lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2015 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2017.

Helstu starfs­svið Védísar Evu eru Evrópuréttur, mannréttindi, hugverkaréttur, persónuvernd, samningagerð og skaðabótaréttur, auk málflutnings. Hjá Rétti starfa nú alls 14 manns og eru eig­end­ur fimm, þar af tveir með mál­flutn­ings­rétt­indi fyr­ir Hæsta­rétti en stofan var stofnuð af Ragnari Aðalsteinssyni.

Védís Eva Guðmundsdóttir: „Réttur er framsækin lögmannsstofa sem er skipuð þrautseigum lögmönnum sem hafa brennandi hugsjón og trú á mikilvægi þess að standa vörð um grundvallarréttindi okkar allra. Ég er full tilhlökkunar að takast á við nýtt hlutverk hjá Rétti og hlakka til að vinna áfram með öflugu teymi stofunnar í krefjandi verkefnum.“

Sjá umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið hér.